leikskólakennarar…

Elena Rut byrjaði á nýjum leikskóla í gær. Við ákváðum að færa hana yfir á leikskóla hérna í hverfinu eftir rúmt ár á Rofaborg í Árbænum. Málið var að við sóttum um á leikskóla í Árbæjarhverfinu meðan við bjuggum á Naustabryggjunni því við bjuggumst ekki við að flytja áður en hún byrjaði á leikskóla, en auðvitað gerðist það. Við vorum ekkert að flýta okkur að skipta um leikskóla eftir að við fluttum svo við bara keyrðum hana upp í Árbæ á leiðinni í skólann á morgnana.

En nú þegar bíllinn hefur hægt og bítandi verið að gefa upp öndina verður þessi útúrdúr sífellt meira vesen þegar hægt væri að henda henni á leikskólann hérna hinumegin við götuna. Og við semsagt sóttum um og fengum í gegn flutning á leikskólann Geislabaug sem er bókstaflega hérna ská á móti. Þvílík hamingja og allir rosa ánægðir.

Fyrstu þrír dagar vikunnar eru planaðir í aðlögun fyrir Elenu og mætum við þá með henni til stuðnings, svona meðan hún er að kynnast nýju starfsfólki og krökkum. Thelma fór með hana í gær og í morgun var komið að mér. Það er skemmst frá því að segja að Elena Rut er að taka þessum flutningi afskaplega vel og engin vandræði komið upp. Ég meira að segja fór fyrr en áætlað hafði verið og leyfði henni að klára dagin ein í dag, sem hún gerði með glæsibrag.

En þá að ástæðu þessara skrifa. Þótt ekki sé nema rétt rúmt ár síðan Elena Rut byrjaði á leikskóla (Rofaborg) og við gengum í gegnum mun erfiðari aðlögunarviku en við erum að standa í núna, hafði ég gleymt því sem ég uppgötvaði á meðan á þeirri aðlögun stóð og rifjaðist aftur upp í morgun. Þessi starfsstétt… leikskólakennarar… hvar á ég að byrja? Þetta eru hetjur! Ekki misskilja mig, ég elska barnið mitt en hún getur alveg gert mig gráhærðan stundum (eins og örugglega allir foreldrar upplifa á einhverjum tímapunkti með barnið sitt). Hvað þá ef ég hefði um það bil 20 stykki í kringum mig heilan vinnudag fimm daga vikunnar eins og leikskólakennarar. Já, þetta eru hetjur.. fer ekkert ofan af því!

Þar fyrir utan eru leikskólakennarar mjög stór póstur í uppeldi barna. Þeim er kennt að deila, bera virðingu fyrir öðrum, ganga frá eftir sig og fleira í þeim dúr svo þau verði sjálfstæðari. Ég gleymi ekki muninum á Elenu Rut eftir að hún byrjaði fyrst á leikskóla. Lokaða, feimna stelpan sem lék sér oftast bara ein fór að vilja leika með öðrum, skiptast á dótinu og koma til annars fólks en okkar foreldranna. Það var allavega virkilega gaman að rifja upp og fá smá innsýn inn í starfið sem fram fer á leikskólum og sjá leikskólakennara sem eru fæddir í þetta starf sinna og leiðbeina börnunum af alúð.

En já, þetta var minn óður til leikskólakennara! 🙂