dugnaðurinn…

Jahérna hér…

Aðeins 7 mánuðir frá síðustu færslu. Hvað getur maður sagt… Reyndar ætla ég að skýla mér á bakvið það að síðasta önn í skólanum var sú allra allra erfiðasta hingað til. Verkefnaálag og bara erfið fög!

En nóg um það. Sumarið er barasta búið líka og þrátt fyrir að hafa lagt gríðarlega vinnu í og verið mjög svo tímanlega í að sækja um sumarstörf hjá hinum og þessum fyrirtækjum sem ég gæti mögulega fengið einhverjar reynslu á því sviði sem tengist mínu námi fékk ég ekkert nema “Takk fyrir að sækja um, en við höfum ráðið í allar stöður” ef ég þá fékk svar yfir höfuð. En það þýðir nú lítið að láta það eitthvað á sig fá, og þegar mér var orðið ljóst að ég fengi ekki starf í sumar sem tengdist náminu var bara farið og sótt um hin ýmsu verkamannastörf hér í borginni og endaði ég á að vinna á Bílavellinum hjá Samskip.

Hluti af bílavellinum hjá Samskip
Hluti af bílavellinum hjá Samskip

Ég hef gaman af því að prófa nýja hluti, en satt best að segja ætlaði ég ekki að trúa því að það væri fullt starf fyrir nokkra aðila að losa nýja bíla út úr gámum á hafnarbakknum, setja á þá smá bensíndreitil og leggja þeim. En sú varð sko heldur betur raunin. Í byrjun sumars var bara brjááálað að gera í akkúrat þessu, endalaus yfirvinna og allt að frétta. Bílaleigurnar vantaði bíla til að leigja túristunum okkar! En svo þegar var komið fram í júní var aðeins farið að róast og menn gátu farið að taka sumarfrí. Þá var ég settur inn á skrifstofu í bókhaldið og aðra tölvuvinnu (tölvupóstsamskipti og símsvörun) og var ég í því þar til ég hætti 19. ágúst til að byrja aftur í skólanum. Heilt yfir var þetta hin fínasta sumarvinna, en þetta var í fyrsta sumarið síðan við fluttum í borgina sem við förum ekki til Eyja að vinna yfir sumartímann. Thelma vann í sumar í félagsmiðstöðinni sem hún vinnur með skóla, sem var fínt því hún fór þá í sumarfrí á sama tíma og Elena Rut fór í sumarfrí á leikskólanum.

Nú erum við hins vegar öll byrjuð í skólanum aftur og líka bara vel. Elena Rut kemur til með að skipta um leikskóla um næstu mánaðarmót, en þá ætlar hún að byrja á Geislabaugi sem er bara hinum megin við götuna. Það verður mega næs þótt hún (og við) eigum eftir að sakna krakkanna og starfsfólksins á Rofaborg. En nú verðu hún með Kolbrúnu Eddu frænku sinni á leikskóla og hún talar ekki um annað þessa dagana 🙂

Jæja, látum þetta duga í bili…

P.S. Þjóðhátíðin var GEÐVEIK!