nýtt ár…

Þá er nýtt ár gengið í garð (og reyndar svolítið síðan) en mitt eina áramótaheit, ef áramótaheit skal kalla, var að koma með tíðari uppfærslur hérna inn. Það byrjar ekkert svakalega vel…

En af okkur litlu fjölskyldunni í Grafarholtinu er allt gott að frétta. Sú stutta vex og dafnar á leikskólanum eins og við var að búast og allt komið á fullt hjá okkur foreldrunum í skólanum. Það styttist í tveggja ára afmælið hjá Elenu Rut og erum við mikið spennt fyrir því enda ótrúlegt að það séu komin tvö ár síðan hún mætti á svæðið! Ég gæti haldið endalaust áfram um uppátækjasemi einkadótturinnar og hversu fyndin hún er en það er eiginlega bara efni í annan pistil, ef ekki nokkra og ætla ég að bíða með það til betri tíma.

Ég hugsa reglulega til þessa bloggs og þess tíma þegar allir (ok, ekki allir en margir) voru að blogga með söknuði. Ég hef talað við marga sem voru virkir í blogginu á árum áður sem hafa sömu sögu að segja og finnst miður hvernig facebook hefur „drepið“ bloggarann. Ég veit ekki almennilega hvað það er en ég virðist einmitt eiga mjög erfitt með að koma mér aftur í rútínu að skrifa nokkrar línur eða henda einhverju skemmtilegu hérna inn reglulega. Í hausnum á mér afsaka ég þetta með því að ég sé svo upptekinn í skólanum en bæði ég og samviskan mín vitum að það er helber lygi.

Þetta er því minn fyrsti póstur á því herrans ári 2016 og vonandi, nei – þeir eiga pottþétt eftir að verða fleiri en í fyrra. Staðreyndin er nefninlega sú að ég er ekki að gera þetta fyrir neinn annan en sjálfan mig því ég fór yfir bloggferilinn minn nýlega sem spannar hvorki meira né minna en 14 ár (að meðtöldum nokkrum hléum auðvitað, en ég byrjaði að blogga í apríl 2002!) og komst að því að ég hafði gleymt stórum hluta af bloggum þegar ég skipti um bloggumhverfi og fór á minn eigin server. Ég hafði gleymt að flytja inn færslur af gamla góða blogger.com, þar sem ég var til að byrja með, en þar voru um 100 færslur sem ég hafði algjörlega gleymt. Það varð einmitt til þess að ég ákvað að taka mig á (sem reyndar skilaði ekkert rosalega mörgum færslum hingað inn) en þegar nýtt ár gekk í garð og fólk fór að spá og spyrja út í áramótaheit byrjaði ég á að fussa og svei-a því ég held ég hafi ekki strengt áramótaheit áður (allavega ekki neitt alvöru að ég held). En eftir smá umhugsun negldi ég niður það það markmið að skrifa oftar hingað inn en ég gerði í fyrra og ekki er það nú mjög háleitt markmið. Færslurnar voru 11 í fyrra og því þarf ég ekki nema að skrifa eina færslu í mánuði til að ná því. En reynslan segir manni að það sé best að byrja hægt, hver veit nema ég komi þessu í vana. Ég held nefninlega að lykillinn að því að gera það sé að koma því inn í hausinn á sér að pistlar/færslur sem maður hendir hingað inn þurfa ekki að vera fleiri hundruð orð (þótt þessi stefni hraðbyri að einmitt því), heldur er líka hægt að henda inn myndum, myndböndum, stöðuuppfærslu(já bara eins og á facebook) eða bara hverju sem manni dettur í hug því þetta er jú eins konar dagbók sem ég veit að ég á eftir að hafa gaman af að glugga í eftir x mörg ár, alveg eins og ég er byrjaður að lesa í gegnum elstu bloggfærslurnar núna hugsandi að það hljóti einhver annar en ég að hafa skrifað þetta… 🙂

Game on!