Kings of Leon…

Kings of Leon eru mættir á klakann og spila í Nýju Laugardalshöllinni í kvöld. Fyrsta sinn sem hljómsveitin spilar hér á landi og ég verð að viðurkenna að ég varð smá spenntur þegar ég heyrði af því að þeir væru á leiðinni, en þegar ég sá verðin sem eru í gangi var fljótlega tekin ákvörðun um að sniðganga þetta.

Um þrjú verðsvæði verður að ræða og er verðið sem hér segir:
Golden Circle:    24.990 kr.
A svæði:             19.990 kr.
B svæði:             14.990 kr.

Síðustu tónleikar sem ég fór á voru í Hyde Park í London sumarið 2011 þar sem meðal annarra komu fram Kings of Leon ásamt White Lies, The Walkmen og Zac Brown Band og allt þetta var að mig minnir á heilar 7-9 þúsund krónur. Upplifunin var stórkostleg (fyrir utan að hafa verið randomly skallaður af einhverjum útúrdópuðum dúdda og þurfa að hlusta á Kings of Leon úr sjúkratjaldi við hliðina á sviðinu) og gerði maður sér heilan dag úr þessu þar sem tónleikarnir voru í gangi frá u.þ.b. tvö til þrjú um daginn til kannski tíu-ellefu að kveldi í geggjað góðu veðri, sannkölluð útihátíðarstemmning.

Ég hef ekki heyrt um marga sem eru á leiðinni á þessa Kings of Leon tónleika og kom það mér því ekki á óvart að tónleikahaldarar bættu við “þriðja svæðinu”, C-svæði þar sem miðinn mun kosta 9.990 kr. og fólk mun væntanlega ekki sjá eitt né neitt þar sem þetta mun vera lang aftasta svæðið (upprunalegu A og B svæði væntanlega minnkuð vegna dræmrar sölu og miðaverð lækkað til að fá fleiri inn (sjá þessa mynd)).

Ég get alveg ímyndað mér að svona tónleikahald sé erfitt hér á landi með krónuna okkar yndislegu með tilheyrandi óstöðugleika… en kommon, það hlýtur að vera hægt að bjóða eitthvað betur en tónleika með flottri hljómsveit á 15 þúsund krónur fyrir að standa aftast og sjá varla neitt (sem breyttist svo í 10 þúsund krónur þegar sala miða var ekki að gera sig korter í tónleikana…). Hér er svo dagskráin:

Dagskrá dagsins
15:00 – Tix.is opnar miðaafgreiðslu í Höllinni.
18:30 – Húsið opnar
20:00 – Kaleo
20:30 – Hlé
21:00 – Kings of Leon
22:30 – Áætluð lok

Með þessu áframhaldi er ég allavega ekkert á leiðinni á tónleika á Íslandi á næstunni.

 

1 comment

Comments are closed.