ársgömul skvísa…

Alveg með pósurnar á hreinu
Alveg með pósurnar á hreinu

Í dag er eitt ár liðið frá því ég upplifði stærsta og eftirminnilegasta atburð ævi minnar, fæðingu dóttur minnar. 29. janúar 2014 var ég í skólanum eins og svo oft áður og Thelma Rut komin góða 8 daga fram yfir settan dag og vorum við (eða allavega ég) bara búin að sætta okkur við að hún yrði sett af stað 2 vikum frá settum degi að mig minnir. Hún hafði reglulega fengið verki og samdrætti á þessum tíma en aldrei staðið nógu lengi yfir eða orðið nógu stutt á milli. Tæknitröllið var meira að segja komið með app í símann til að vera með tímana á þessu alveg á hreinu.

Svo þennan miðvikudagsmorgun fór eitthvað meira að gerast. Rétt fyrir hádegi hringir Ásta María í mig og segist vera á leiðinni með Thelmu upp á fæðingadeild, það sé líklegast eitthvað að fara að gerast! Ég í hálfgerðu móki fer aftur inn í tíma og sest niður, fatta svo ekki fyrr en strákarnir spyrja mig hvort þetta hafi verið Thelma, en ég ætlaði bara að halda áfram að reikna. Ég pakka draslinu saman, stekk út í bíl og bruna uppá fæðingardeild. Ég hendi í tvo tíma í stöðumælinum því ég var handviss um að við yrðum send heim aftur innan skamms.

Spila með pabba
Spila með pabba

Þegar inn var komið kom í ljós að Thelma var komin með 8 í útvíkkun og
greinilega eitthvað að fara að gerast. Það styttist og styttist á milli hríða og nú var allt kapp lagt á að gera þetta sem bærilegast fyrir Thelmu. Hún var hörð á því að vilja ekki mænudeyfingu en fékk í staðinn einhverjar vatnsbólur undir húðina, glaðloft, nudd með allskonar olíum og ég veit ekki hvað og hvað. Ég man hvað mér fannst ég eitthvað lítilsmegnugur á þessum tíma, eina sem ég gerði var að halda í höndina á Thelmu og setja kaldan bakstur á ennið á henni.

Það var svo kl. 16.48 sem lítil klístruð og bláleit stelpa leit dagsins ljós. Ég starði orðlaus á hana og á ljósmóðurina til skiptis, bíðandi eftir leiðbeiningum um það hvernig ég átti að vera en eiginlega meira hvort það sé í lagi með dóttur mína sem ég hélt að myndi strax byrja að hágráta eins og í bíómyndunum. Það var svo ekki fyrr en ljósmóðirin byrjaði að nudda hana að Elena fór að gráta og pabbanum létti. Fullkomlega heilbrigð stúlka var komin í heiminn og ábyrgðartilfinningin flaug upp í þriðja veldi.

Elena Rut stendur upp
Verður ekki mikið krúttlegra 🙂

Framundan var (og er) tími sem hefur gefið mér meira en öll þau ár sem ég hef
lifað fram að þessu (klisja, ég veit – en dagsatt!) en að vísu má bæta því við að á næstum því sama tíma eða hálfu ári áður en Elena Rut fæddist settist ég á skólabekk að nýju, kláraði frumgreinanám (háskólabrú) og er nú að læra Tölvunarfræði við HR. Svo það hefur ýmislegt breyst á stuttum tíma og þó þetta sé erfitt er þetta og MUN þetta vera algjörlega þess virði í framtíðinni. Í þessu samhengi er auðvitað ekki hægt að horfa fram hjá hetjunni Thelmu sem kláraði BS í Næringafræði bæði kasólétt (haustönn), og svo nýbökuð móðir með barn á brjósti (vorönn). Ofurkona if you ask me!

En já, ritgerðin sem aldrei átti að verða er fædd og biðst ég forláts á því. Allavega, elsku Elena Rut til hamingju með fyrsta afmælið þitt – ég elska þig út af lífinu.