kreppa?

Ég verð nú bara að segja alveg eins og er að miðað við fréttaflutning fjölmiðla af ástandinu sem við Íslendingar stöndum í að ég held ég sé bara bærilega staddur. Ég er engan veginn að gera lítið úr þessu skítaástandi sem er hér á landi og þá sérstaklega í höfuðborginni, heldur kannski meira að benda á það eru sem betur fer ekki allir að missa vinnuna, húsið, bílinn og jafnvel bara allt sitt.

Ég til að mynda hef aldrei fengið fleiri atvinnutilboð og á síðastliðnu hálfu ári og er ég sem stendur í svo mikið sem fjórum vinnum, tveimur föstum og tveimur lausastörfum. Ég var einmitt í dag að hætta hjá Grím tengdó og byrja hjá Samma tölvukalli í fyrirtækinu hans Örveri ehf. Örver er lítið fyrirtæki hér í Eyjum sem sér um alls kyns tölvuviðgerðir, uppsetningu internets, síma og sjónvarps fyrir Símann auk þess sem það þjónustar mörg fyrirtæki í bænum með tölvur og alls kyns tölvutengt dót. Fyrsti dagurinn lagðist bara þrælvel í mig og held ég að framhaldið sé bara bjart enda alltaf þörf fyrir svona þjónustu á þessari tækniöld.

Hins vegar er ömurlegt að heyra fréttirnar af síldarvertíðinni. Sjávarútvegsráðherra búinn að banna veiðar vegna sýkils sem fundist hefur í síldinni og því allt stopp í dag. Vertíð sem útlit var fyrir að entist fram að jólum og jafnvel eitthvað lengur hefur nánast verið blásin af. Mun minna verð fæst fyrir brædda síld en síld til manneldis og því ljóst að gríðarlegar gjaldeyristekjur tapast þar svo ekki sé minnst á laun sem fólkið verður af.

En svona til að létta mönnum lífið langar mig að benda á enn einn froðubloggarann sem var að prumpa yfir okkur Vestmannaeyinga fyrir að vilja nýjan Herjólf… þetta er eiginlega bara fyndið.