samstuð og geimverupælingar…

Ég skellti mér upp á land síðustu helgi með Féló (já, ég er byrjaður að vinna þar aftur =), nánar tiltekið á Selfoss þar sem okkar maður Sindri Freyr Guðjónsson tók þátt fyrir hönd Féló í Samstuð – söngvakeppni félagsmiðstöðva á Suðurlandi og er þetta svona eiginleg undankeppni fyrir söngkeppni Samfés sem haldin verður í lok febrúar á næsta ári. Fimm keppendur af 16 komust áfram í lokakeppnina og gerði Sindri sér lítið fyrir og nældi sér í miða á úrslitakvöldið, glæsilegt hjá honum.

Það var samt ekki það sem ég ætlaði að tala um hér heldur fyrirlestur sem ég, Sigþóra og að ég held allir krakkarnir frá Eyjum skelltu sér á. Þetta var fyrirlestur um tilvist geimvera og að sjálfsögðu var Magnús nokkur Skarphéðinsson (bróðir Össurar) fenginn til að kynna þetta efni fyrir áhugasömum unglingum, og okkur Sigþóru. Ég ætla að byrja á að segja að ég hef ávallt verið mjög skeptískur á tilvist geimvera, en jafnframt ekki gert mikið í því að fræðast um þetta ‘fyrirbæri’ af einhverri alvöru. Það er lítið fjallað um þessi mál og fólk sem segist hafa séð fljúgandi furðuhluti almennt talið geðbilað. Magnús kom nú samt með nokkur dæmi sem sönnun á tilvist geimvera og eiga Bandaríkjamenn víst að hafa í vörslu sinni einhverja 9 fljúgandi diska sem hafa brotlent þar, en neita því alfarið.

Hann sagði okkur einni frá einhverjum bónda í Sviss sem á fleiri tugi þúsunda ljósmynda af fljúgandi furðuhlutum sem reglulega komu í heimsókn til hans og tóku hann meðal annars með sér á sína plánetu, man ekki alveg hvað hann sagði að sú pláneta héti. Það sem mér fannst kannski undarlegast var að geimverurnar leyfðu honum að taka myndir af fljúgandi diskunum sínum en aldrei af sjálfum geimverunum og ekki heldur af plánetunni þeirra. Frekar gruggugt en þetta var nógu spennandi til að halda krökkunum við efnið, enda hef ég sjaldan séð unglinga hlusta á fyrirlestur með jafn miklum áhuga… meira að segja ég er farinn að lesa mig til um þetta á netinu…

En jæja, ætla að kalla þetta gott. Læt fylgja með myndir sem ég tók núna á sunnudaginn hérna í Eyjum annars vegar af sólarlagi vestur á hamri og hins vegar haustmynd dauðans. Njótið vel…

3 comments

  1. Við erum öll geimverur.

    Geggjaðar myndir hjá þér.
    kveðja.

  2. Takk fyrir það Gaui, en nú er ég svo forvitinn… hvaða Gaui er þetta? 🙂

Comments are closed.