“vertíðin” búin?

Ég skellti mér á nokkrar vaktir í Vinnslustöðinni í síðustu viku, sem reyndar teygðu sig alveg fram á mánudagsmorgun núna í þessari viku. Allt í allt held ég að ég hafi nælt mér í um 10 vaktir og er ég bara nokkuð sáttur við það… allavega ef það gengur eftir sem sjávarútvegsráðherra hefur gefið út um loðnukvóta. Hefðbundnum veiðum var hætt á hádegi á föstudaginn síðasta en ég held reyndar að Kapin hafi fengið að fara út aftur á laugardagskvöld vegna þess að þeir ‘áttu inni’ óveiddan kvóta sem hafði verið gefinn út fyrir bannið. Svo nú eru nokkur skip að aðstoða hafrannsóknarskipin við loðnuleit á miðunum og heyrði ég í fréttunum í gær að þeir væru nú að finna ágætis magn af loðnu hérna aðeins austan við Eyjarnar.

Sjómenn hafa reyndar kvartað mikið undan seinagangi Hafró manna, um að þeir skili sér seint á miðin til mælinga eftir að skipstjórar hafa látið þá vita af torfum. Las reyndar helvíti góða grein frá áhöfninni á Faxa RE sem er að finna hér. Mjög fyndin og lýsir að ég held mjög vel skoðunum sjómanna á þessu loðnuveiðibanni og áliti þeirra á Hafró. Las nú samt frétt á mbl.is þar sem sagt er að loðnumælingar standi nú yfir á fullu og að ‘allt sé í sómanum’ – að sögn Sveins Sveinbjörnssonar leiðangursstjóra. Hvað maður á svo að lesa út úr þeim skilaboðum kemur vonandi í ljós fyrr en síðar, því ekki veitir manni nú af meiri pening, fátæki námsmaðurinn sjálfur. Svo er þetta líka bara svo gaman!

Jæja, ætla ekki að hafa þetta lengra. Kominn tími á svefn. Set hérna inn úrslit könnunarinnar sem ég lét fylgja með síðustu færslu… þar sem greinilega langflestir skoða mbl.is mest.

[poll=2]

3 comments

  1. Mér líður svona eins og ritstjóranum á Póstinum í þáttunum Pressu þegar hann setti blaðið í prentun með fyrirsögn sem var svo skotin niður morguninn eftir í öðrum fjölmiðlum… Sjávarútvegsráðherra hefur allavega aflétt veiðibanninu svo maður fer vonandi hvað á hverju að fá boð um að mæta í vinnu! money money money!

Comments are closed.