37 years ago…

Jæja, kominn tími á færslu segiði? Já, kannski… Það hefur nú nokkuð drifið á daga mína síðan síðast. Ég eignaðist lítinn sætan frænda, en það var Elena systir sem varð fyrst af systkinunum að færa mömmu og pabba sitt langþráða barnabarn. Hann kom í heiminn 21. nóvember og allt gekk eins og í sögu. Vil ég bara enn og aftur óska Elenu og Þóri til hamingju með litla gullið og get ég ekki beðið eftir að kíkja á þau og knúsa litla guttann 😉

Svo er maður nú í miðju prófafjöri. Búinn að fara 2 próf, Íslensku 403 og Sálfræði 103… Gekk bara svona ágætlega í báðum prófum, en svo á ég 4 kvikindi eftir. Fer i Ensku 503 á morgun, Sögu 203 á laugardaginn, Landafræði 103 á mánudaginn og svo loksins Félagsfræði 203 á miðvikudaginn. Próflokum verður svo fagnað með ferð til London þann 14. des ásamt Arndísi skvísu, en við munum gista hjá Þórhalli bró & Hrund í miklu yfirlæti eins og vaninn er á þeim bænum. Þar hef ég ákveðið að kaupa mér loksins iPod, og held ég að blár 4gb iPod Nano verði fyrir valinu… jafnvel grænn, en það kemur allt í ljós.

Svo er það planið eftir áramót, ég ætla að halda áfram í FÍV en minnka aðeins við mig og vera bara fyrir hádegi þar. Ég hef verið að skoða fjarnámið hjá hinum ýmsu skólum og hér um bil búinn að ákveða að taka 2 áfanga í fjarnámi í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Þannig að þetta verður svona smá blanda hjá manni. Ég vonast líka eftir því að geta með því skellt mér á eitt stykki loðnuvertíð svona aðeins til að fríska upp á “sérhæfða fiskvinnslumanninn” og auðvitað bankabókina líka 😀

Annað sem hefur óneitanlega vakið athygli mína, (og greinilega annarra sem þekkja mig) er að nú hafa matvöruverslanir tekið sig til og skellt okkur “Einirunum” á sölu hér og þar við litla hrifningu okkar þar sem við erum klárlega í útrýmingarhættu, teljum ekki nema tæplega 40 manns hér á landi sé millinafnið tekið með. Að þessu tilefni höfum við sem ekki þegar höfum verið seldir ákveðið að efna til háværra mótmæla fyrir utan Krónuna í Vestmannaeyjum á föstudaginn klukkan 15 og er búist við metmætingu! Styðjið okkur í GUÐANNA BÆNUM