operation sumarstarf…

Það er ekki seinna vænna að fara huga að því hvað maður ætlar að gera af sér í sumar. Það eina sem við fjölskyldan höfum ákveðið er að það verður ekki farið til Eyja þetta sumarið. Við erum bæði komin á þann stað í náminu að best væri að fá vinnu tengda því sem fyrst og væri því æskilegast ef maður krækti í eitthvað starf sem byði upp á einmitt það, eða allavega möguleikann á að vinna sig upp í svoleiðis starf seinna meir. Já, ég er semsagt byrjaður að leita mér að starfi hjá fyrirtæki sem ég gæti mögulega unnið hjá í hlutastarfi með skóla eftir sumarið.

Það er algjörlega „krúsjal“ að byrja sem fyrst að ná sér í einhverja reynslu sem fyrst þó það þýði að maður þurfi að hoppa út í djúpu laugina. Ég verð hálfnaður með námið í sumar (vona að ég sé ekki að jinxa prófin!) og ég tel mig vera kominn með næga kunnáttu til að geta nýst að einhverju leiti í forritunarvinnu. Þannig að nú er bara að krossa fingur og vona það besta. Ég byrjaði á að sækja um vinnu á þeim stöðum sem ég fann í fljótu bragði í gegnum hinar ýmsu ráðningarsíður en ætla svo að leggjast yfir og gera lista yfir fyrirtæki í þessum bransa sem ráða til sín fólk eftir öðrum leiðum en í gegnum ráðningasíðurnar (lesist: ráða helst bara fólk sem einhver sem þau treysta mælir með). Það sakar ekki að reyna allavega 🙂

En auðvitað sæki ég um á fleiri stöðum til að hafa í bakhöndinni, því ekki þýðir að vera pikkí á störf þegar maður er fátækur námsmaður og þarf nauðsynlega á innkomunni að halda… en við bara vonum það besta!