farsímaanáll…

Einhverntíman rakst ég á blogg þar sem viðkomandi útlistaði símasögu sína alveg frá byrjun. Þrátt fyrir að þekkja viðkomandi ekki neitt las ég í gegnum færsluna þar sem skrifað var stuttlega um hvern síma og sirkað út tímabilið sem hver sími var í notkun. Mér fannst þetta spennandi hugmynd og þótt ég viti að eeeeeeeenginn les lengur blogg ákvað ég að henda í eitt stykki símaannál, þótt ekki væri nema bara fyrir mig sjálfan seinna meir. Síðustu vikur hef ég verið að fletta í gegnum þetta blessaða blogg mitt þar sem við félagarnir vorum að skipta um hýsingaraðila og ég verð bara að segja eins og er að stundum hélt ég að einhver annar en ég hafi skrifað sumar færslurnar. Það er nokkuð ljóst að tímarnir breytast og mennirnir með… en here goes:

 Siemens C35Siemens C35

Ég er ekki 100% á að þetta hafi verið fyrsti síminn minn en hann er allavega mjög líkur honum. Ég vann þennan síma á Skjálftamóti þar sem ég spilaði með clan ICE í CTF (Capture the flag) og við enduðum í 1. sæti. Ég held þetta hafi verið árið 2000 og gaman að minnast á það að símanúmerið sem fylgdi símanum (þá frelsisnúmer) er það sem ég hef notað alla tíð síðan.

Nokia 3310

Fyrsti síminn sem ég keypti mér í Nokia 3310kringum 2001-2002. Vinsælasti síminn á þessum tíma sem ég held að flestir hafi átt einhverntíman (ásamt 5110 sem mér reyndar hlotnaðist aldrei sá heiður að eiga). Man hvað mér fannst geggjað að geta náð í nýja hringingu með því að senda SMS og borga að mig minnir 50kr. fyrir. Nirvana – Lithium varð fyrir valinu.

Ericsson T39Ericsson T39

Ég man að þegar ég keypti þennan síma í kringum 2003 var það bara af því pabbi hafði keypt sér nákvæmlega eins síma. Það var allavega ekki útaf fallega hlussu loftnetinu sem á honum var. En hann var nettur og fór vel í vasa þessi, og reyndar átti hann eftir að reynast mér svo vel að ég hélt mig við Ericsson í næstu símakaupum.

Sony Ericsson T630sony-ericsson-t630-a2t-800

Þennan síma var maður sko ánægður með. Loksins sími með litaskjá! Ætli þessi hafi ekki verið keyptur í kringum 2004-2005. Stór og fínn skjár (á gömludagamælikvarða allavega), tæpar 2 tommur og brjáluð upplausn (128×160 pixlar). Ég man að í þessum síma var minigolf leikur sem maður eyddi mörgum stundum í.

Samsung SGH-Z400Samsung-SGH-Z400

Þá er komið að slide símunum. Þvílíkt bylting! Hægt að slæda símanum upp og þar með birtist takkaborðið. Svo bara til baka áður en maður skellti símanum í vasann. Síminn varð auðvitað mun þykkari fyrir vikið en hverjum var ekki sama… það var hægt að slæda símanum! Fékk þennan á slikk hjá Nova stuttu eftir að þeir opnuðu í kringum 2006-2007 að mig minnir.

Samsung SGH-A137samsung-sgh-a137

Svo voru það samlokusímarnir. Þennan keypti ég að ég held 2008. Lítill og nettur var hann en ég man enn hvað batteríið var lélegt í þessum síma. Líklegast verið að leita eftir ódýrum síma. Lítið annað sem ég get sagt um þennan gæja nema það að hann var svona millibilsástand.

LG Optimus One

Fyrsti eiginlegi snjallsíminn sem maður LG-OPTIMUS-One_01keypti sér. Eftir að hafa sett sér budget varð þessi sími niðurstaðan og var ég hæstánægður með kaupin á sínum tíma. En þróunin í snjallsímum var á ljóshraða á þessum tíma (2010) og ég man hvað ég dróst mikið aftur úr félögunum á skömmum tíma, en það má svosem alltaf búast við því þegar maður setur sér budget í þessum málum. Þennan síma notaði ég alveg þar til ég fékk minn núverandi síma, og þá fékk Thelma Rut hann, og pabbi svo á eftir henni svo þessi hefur heldur betur verið vel nýttur!

Samsung Galaxy S4samsung-galaxy-s-4-i9500-black-mist

My precious! Þennan fékk ég í þrítugsafmælisgjöf (2013) frá mínum nánustu og vá… bara vá. Stökkið frá síðasta síma er MEGA. Það er hægt að gera allan fjandann í þessu blessaða tæki. Þetta er í raun bara mini tölva sem maður hefur í vasanum. Það má í sjálfu sér segja að þessi sími (og kannski smá LG-inn) hafi orðið til þess að maður sá sér leik á borði og henti sér í skóla aftur, vitandi það að þörfin á tölvunarfræðingum mun einungis aukast með tilkomu þessara síma/tölva.

PS. Þarna inn á milli Samsung samlokusímans og LG Optimus One keypti ég eitt stk. Kínasíma af ebay sem var eftirlíking af einhverjum Samsung snjallsíma sem ég get ómögulega fundið í augnablikinu. Hendi honum inn ef ég dett inn á hann.