ÍBV – Fram…

Mikið elska ég nú að fótboltasumarið sé byrjað. Fyrsti leikur ÍBV í Pepsi-deildinni var í kvöld á Hásteinsvelli þar sem liðið tók á móti Fram. Þetta er þriðja árið í röð sem ÍBV og Fram mætast í fyrstu umferð Íslandsmótsins en fyrstu tvö skiptin mættust liðin á Laugardalsvelli þar sem Fram hafði betur í báðum leikjum. Það var þó ekki það sama uppi á teningnum í kvöld sem betur fer en mikið rok hefur verið í Eyjum í dag sem setti svolítið strik í gæðareikning fótboltans.

ÍBV spilaði undan vindi í fyrri hálfleik og voru mun meira með boltann án þess þó að skapa sér mikið af hættulegum færum. Framarar spiluðu skynsamlega og vörðust vel auk þess sem tafir af þeirra hálfu voru nokkrar. Mínir menn náðu ekki að gera sér mat úr meðvindinum og í hálfleik var staðan 0 – 0.

Í síðari hálfleik bjóst maður við að þetta snerist við en Framarar náðu aldrei að nýta sér vindinn neitt að ráði auk þess sem ÍBV mættu mun hungraðri í seinni hálfleikinn og ætluðu greinilega ekki að gefa tommu eftir. Það var ekki að sjá að Framarar væru að spila með vindi því sóknartækifærin skiptust að ég held bara nokkuð jafnt á milli liðanna í seinni hálfleiknum (ekki búinn að sjá neina tölfræði samt). Þegar aðeins átti eftir að spila uppbótartíma (sem var að minnsta kosti 3 mínútur) var staðan enn 0 – 0 og allt stefndi í steindautt jafntefli… en þá tók (að mínu mati) maður leiksins, Þórarinn Ingi Valdimarsson sig til og reif sig upp vinstri kantinn átti og átti gott skot á markið sem markvörður Fram nær að verja út í teig, þar sem enginn annar en TG9 (Tryggvi Guðmundsson) nær að fylgja eftir og setur boltann í stöng og inn! Markið er skorað á 93. mínútu og leikurinn flautaður af um leið og miðjan hafði verið tekin. Sætara verður það ekki!

Svo er næsti leikur á móti Fylki hérna heima á laugardaginn kl 14:00 –   ÁFRAM ÍBV!