æs seiv…

Var búinn að lofa mér því að blogga ekki um þetta einstaklega óheillandi og já, bara leiðinlega mál, Icesave. Hef verið á báðum áttum með þetta án þess þó að vera að gaspra því út um allt eins og svo margir (á facebook) en hef komist að endanlegri niðurstöðu loksins og ætla hér að láta fljóta með einn fyrirlestur og einn pistil sem hjálpaði mér við þessa annars stóru ákvörðun:

Reimar Pétursson hæstaréttarlögmaður útskýrir dómstólaleiðina á mannamáli:

Og svo pistill eftir Hjört Smárason markaðsfræðing:

Þetta snýst ekki um reiði eða hefnd
By Hjörtur Smárason

Þeim mun meira sem ég les, hvort sem er frá já eða nei mönnum, þeim mun sannfærðari verð ég um að Nei sé eina rétta svarið á laugardaginn. Og það er ekki af því að ég sé svo reiður eða vilji hefna mín (á hverjum?).

Eins og málið horfir við mér, þá er þetta tiltölulega einfalt.

1. Einkabanki féll.

2. Innistæður voru tryggðar upp að vissri upphæð.

3. Bresk og hollensk stjórnvöld ákváðu að bæta innistæðueigendum tjónið að fullu. Ekkert samráð var við íslensk stjórnvöld um þessa ákvörðun.

4. Bresk og hollensk stjórnvöld vilja fá þessa upphæð bætta að fullu auk vaxta frá íslenskum stjórnvöldum.

Þeir munu fá bætur sem nema upphæð talsvert yfir þeirri upphæð sem tryggð var samkvæmt lögum (1175 milljarðar í stað 675) þó að sagt sé nei á laugardaginn. Það sem þeir eru að fara fram á er umtalsvert meira auk vaxta. Sú viðbót á sér enga lagalega eða siðferðislega stoð. Þetta var einkafyrirtæki sem fór á hausinn, innistæðueigendur eru búnir að fá sínar bætur þökk sé breskum og hollenskum yfirvöldum. Bresk og hollensk yfirvöld eru örugg um bætur úr þrotabúinu sem fara langt framúr því sem okkur ber skylda til.

Ef við skoðum málflutning nei og já manna eins og hann var settur fram í auglýsingum í dag þá var hann svona:

Nei auglýsingin telur fram 10 rök:

1. Engin lagaskylda að verða við kröfum Breta og Hollendinga

2. Það er ólíðandi að skuldum einkabanka sé velt á almenning

3. Þeir fengu ekki leyfi okkar

4. Þeir vilja frekar beita hótunum en að fara dómstólaleiðina

5. Bretar og Hollendingar fá 1175 milljarða þótt við segjum Nei

6. Samningurinn felur í sér of mikla áhættu fyrir þjóðina

7. Samningurinn breytir krónuáhættu í gjaldeyrisáhættu

8. Málstaður Íslands nýtur stuðnings erlendis

9. Já – leysir ekki vanda atvinnulífsins

10. Það er ekkert að óttast

Já auglýsingin telur fram eftirfarandi rök:

– fljótvirkara

– auðveldara

– skemmtilegra

– ódýrara

á meðan nei sé

– langdregið

– erfitt

– leiðinlegt

– og dýrt.

Ég veit ekki með ykkur, en ég ætla ekki að segja já og samþykkja vafasaman samning vegna þess að ég sé orðinn leiður á umræðunni. Ég á 5 börn og ég ætla ekki að horfa framan í þau og segja að ég hafi bara verið orðinn leiður á þessu. Það var svar formanns fyrsta samninganefndarinnar sem gerði einn versta samning sem gerður hefur verið frá Gamla sáttmála. Og vér mótmæltum öll!

Nú er kominn nýr samningur sem er vissulega mun betri en sá gamli. En það breytir því ekki að hann er ekki byggður á lagalegum forsendum heldur er hann skásta friðþægingin til þess að bresk og hollensk stjórnvöld láti ekki verða af hótunum sínum um að tefja ESB viðræður, IMF samninga eða annað sem þeir hafa hótað.

Sömu rökum er beitt nú og seinast um áhrif þess að segja nei – og ekkert af því rættist siðast og ég sé ekki af hverju það ætti að gera það núna. Þvert á móti, þá er Nei skýr skilaboð um að við látum ekki þvinga okkur í eitt eða neitt. Við ætlum ekki að láta velta ábyrgð einkabanka yfir á skattgreiðendur. Það að bresk og hollensk stjórnvöld hafi valið að gera það verða þeir að eiga við sína skattgreiðendur, ekki okkar. Við höfum tækifæri til að láta reyna á þetta mál fyrir dómsstólum, eitthvað sem almenningur í Bretlandi, Írlandi, Grikklandi og annars staðar í Evrópu vill mjög gjarnan til þess að þau sem skattgreiðendur þurfi ekki að taka á sig skuldir einkabanka þar.

Með því að segja Nei tryggjum við betur samningsstöðu Íslands í framtíðinni í öðrum málum því það sýnir að við erum þjóð sem lætur ekki þvinga sig með hótunum. Við höfum bein í nefinu til þess að segja Nei þegar okkur misbýður.

Ritstjórar virtra dagblaða eins og Financial Times, The Guardian og Wall Street Journal hvetja Íslendinga til þess að segja Nei. Lesendur sem hafa kommenterað á fréttir á þessum miðlum hvetja Íslendinga til þess að segja Nei. Fjöldi íslenskra og erlendra lagaprófessora og dómara hvetja Íslendinga til þess að segja Nei. Þeir sérfræðingar sem Já hliðin bendir á – eru fólkið í samninganefndinni! Og íslenskir Evrópusinnar hvetja okkur til þess að segja Já. En fjöldi embættismanna hjá ESB hefur lýst því yfir að Icesave hafi engin áhrif á umsóknarferlið eða samningaviðræðurnar þar þannig að aftur er það hæpinn hræðsluáróður. Matsfyrirtækið Moody’s hótar að setja Ísland í ruslflokk ef kosið verður Nei. Þeir vilja náttúrulega Icesave málið úr sögunni og ekki fyrir dómstóla þar sem þeir gáfu Icesave toppeinkunn rétt fyrir hrun. Þeir eru ekki hlutlaus aðili að þessu máli. Það er fullt af góðum rökum á advice.is en lítið annað en hræðsluáróður á afram.is – sem flest allt hefur verið afsannað nú þegar.

Ég segi NEI af því að ÉG NENNI að standa vörð um hagsmuni barnanna minna og það sem rétt er, bæði gagnvart íslenskum skattgreiðendum og ekki síður gagnvart öðrum skattgreiðendum í Evrópu. Við erum engann að svíkja með því – og allra síst börnin okkar!

Þetta átti upphaflega að vera hlutlaus grein um já og nei hliðarnar, en það einfaldlega falla öll vötn í NEI reitinn.

Ég vil að lokum þakka Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir að vísa þessu máli til þjóðarinnar.

Hjörtur Smárason

Stjórnmálafræðingur (með sérhæfingu í samningaviðræðum smáríkja við stór ríki)

ps. Ef þið teljið þetta geta hjálpað einhverjum að gera upp hug sinn, þá er ykkur mjög velkomið að deila þessu áfram.

Tenglar:

Umfjöllun í The Guardian:

http://www.guardian.co.uk/business/2011/apr/03/icesave-bailout-splits-iceland-voters

Já hliðin:

http://www2.afram.is/

Nei hliðin:

http://www.advice.is/