sumarið að mæta…

Já það er að koma sumar… reyndar komið samkvæmt dagatalinu en ég vil bíða aðeins lengur, allavega fram yfir próf. Það er nú þannig að ég klára próf 13. maí, nánar tiltekið á afmælisdaginn minn (tölum ekki meira um það). Svo tekur við sumarvinnan en það er nokkuð ljóst að mig mun ekki skorta atvinnu í sumar. Ég verð hjá Grími Kokk og með því mun ég svo vinna hjá Einari Birni um helgar í veislum og fleiru tilfallandi, en hann rekur núna veisluþjónustuna Einsa kalda. Þá kem ég einnig til með að vinna hjá þeim félögum á 24seven ehf, en þeir reka meðal annars frétta og umræðuvefinn eyjar.net. Þar mun ég sjá um að setja inn fréttir, taka ljósmyndir og vera með puttann á púlsinum í Eyjum í sumar. Svo er aldrei að vita nema Stefán á Café reyni að fá mann til sín svona inn á milli… þegar mest er, eins og var síðustu helgi! Það er ekki laust við að það sé komin svolítil tilhlökkun í mann, þar sem þetta er ekkert í líkingu við það sem maður hefur verið að gera síðastliðin sumur og á ég ekki von á öðru en að þetta verði skemmtileg tilbreyting.

Annars er sumarskapið að koma hægt og bítandi milli þess sem maður lærir undir lokaprófin. Við feðgarnir (ég, Ingólfur & pabbi) tókum okkur til og keyptum okkur glænýtt grill fyrir sumarið. Ég tók mér heila kvöldstund í að setja gripinn saman í gær þar sem ég var ekki að fara í próf í morgun. Þetta er ekkert smá grill, 4 undirbrennarar, einn yfirbrennari til að halda hitanum í grillinu og svo einn brennari á hliðinni. Svo er auðvitað kælibox á hinni hliðinni undir bjórinn… semsagt alvöru grill. Svo fylgir grillteinn með mótor svo hægt er að grilla læri og heila kjúklinga eins og ekkert sé. Læt hérna fylgja mynd af gripnum og ætla að kalla þetta gott… best að koma sér í lærdómsgírinn fyrir sálfræðipróf!

Grillmaster 3000

5 comments

  1. Ekki amalegt að vera kominn með eldhús út í garð! 🙂 Hvað kostar svona kvikindi ?

  2. Til hamingju með afmælið, próflokin og síðast en ekki síst allar vinnurnar. Vona að þú verðir duglegur að fjalla um leiki KFS í sumar og sparir ekki gagnrýnina á Trausta hrausta.
    Bestu kveðjur úr Vöruhúsi Gleðinnar
    Hilmar og félagar

  3. Takk kærlega fyrir það félagar! Gaman að heyra frá ykkur, ég verð að kíkja á ykkur næst þegar ég á leið í bæinn! Að sjálfsögðu mun ég fjalla ítarlega um stórveldið KFS í sumar og vænti þess af fyrirliðanum að hann haldi mannskapnum við efnið og komi liðinu upp… 😉 Annars bið ég bara að heilsa ykkur og vonandi hafiði það sem best í Breiddinni í sumar!

Comments are closed.