erum við að stranda?

Ég held ég hafi aldrei talað um Bakkafjörumálið svokallaða hérna á blogginu, en eftir miklar umræður í fjölmiðlum (allavega hér í Eyjum) upp á síðkastið verð ég bara að fá að tjá mig um þetta stórmikilvæga mál sem snertir okkur öll sem hér á þessari eyju búum.

Nú er mikið rætt um undirskriftalista sem Magnús Kristinsson stendur fyrir á heimasíðunni ströndumekki.is þar sem um 2800 manns hafa skráð sig þegar þetta er skrifað. Ég renndi augunum í fljótu bragði yfir listann og gat ekki betur séð en að fólk sé að skrá börnin sín þarna (þá meina ég ungabörn) sem ég tel bara vera vitleysu. Í rauninni mun þessi undirskriftasöfnun gera lítið annað en að tefja framkvæmdir við Bakkafjöruhöfn þar sem ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt þessar framkvæmdir. Af hverju kom þessi listi ekki löngu fyrr? Að setja þetta fram svona núna þegar allt hefur verið samþykkt minnir mann nú bara á mótmæli Ómars Ragnarssonar við Kárahnjúkum, og við vitum öll hvernig það endaði.

Ég get ekki annað en verið sammála bæjarstjóranum mínum í því sem fram kemur í svari hans þar sem hann er spurður út í undirskriftasöfnunina á mbl.is. Þar bendir hann á rangfærslur þeirra sem standa að þessari undirskriftasöfnun, þar sem þeir tala um að sjóferðin milli Eyja og Bakkafjöru verði 40 mínútur en réttur tími er 30 mínútur. Þeir tala um að ófært verði stóran part úr árinu en rannsóknir sýna að niðurfelldar ferðir verði ekki meiri en núverandi Herjólfur stendur fyrir.

Helsta vopn þeirra sem að undirskriftasöfnuninni standa er að mínu mati myndbandið sem þeir hafa til sýnis á heimasíðu sinni, á meðan helsta vopn þeirra sem styðja Bakkafjöru er yfir 100 blaðsíðna löng skýrsla frá Siglingastofnun með öllum þeim upplýsingum og svörum sem forvitnir og áhugasamir aðilar um þetta mál þurfa. Hana er hægt að nálgast hér. Ég byrjaði bara að lesa hana í dag og fann strax svör við mörgum spurningum sem ég hafði í sambandi við Bakkafjöruhöfn og hvort hún yrði áreiðanlegur kostur. Ég komst til dæmis að því að:

  • Rannsóknarvinna hefur verið í gangi frá árinu 2003
  • Bakkafjara er sá staður þar sem ölduhæð er hvað minnst við suðurströnd landsins, hún er í vari af Vestmannaeyjum
  • Farþegafjöldi ferjunnar verður vel yfir 300 manns og mun hún geta tekið allt að 36 fólksbíla
  • Siglingartími verður um 30 mínútur og gert er ráð fyrir 2 ferðum á dag, 4 yfir sumartímann en fleiri ef þörf krefur.
  • Öldumælingar yfir 26 mánaða tímabil sýna að 39 ferðir hefðu fallið niður á þessu tímabili, 36 að vetrarlagi og 3 yfir sumartímann.
  • Mörgum af þessum ferðum hefði verið hægt að hliðra um nokkrar klukkustundir og sigla þegar veðrnu slotaði.
  • Hefði það verið gert kom í ljós að um 15 ferðir hefðu fallið niður, allar að vetrarlagi.
  • Er sú tíðni frátafa sambærileg frátöfum Herjólfs sem að jafnaði verður að fella niður ferðir tvisvar til þrisvar á ári. (Þessi tala hefur nú reyndar verið að hækka, eða er það ekki?)

Mér finnst allt of mikið vera um að einlit umræða myndist um leið og eitthvað svona skýtur upp kollinum (sbr. ströndumekki.is) og mikilvægt að benda fólki á að skoða hlutina út frá báðum sjónarmiðum. Ég veit það að margir nenna að horfa á 5 mínútna langt myndband á YouTube, en ég veit það líka að margir nenna ekki að lesa yfir 100 blaðsíðna skýrslu… Þess má svo til gamans geta að skipstjórinn á Lóðsinum, Sveinn Rúnar Valgeirsson, sagði þetta eftir leiðangurinn sem þeir fóru upp í Bakkafjöru í fyrra, sem hefði kannski mátt fylgja vídjóinu:

Í sjálfu sér er ég ekki hræddur um að væntanleg ferja gæti orðið í hættu en ég óttast að minni skip gætu orðið fyrir áföllum við þessar aðstæður.”

Kynnum okkur málin áður en við ákveðum að við séum strand.