vefmiðlavangaveltur…

mbl.is vs. vísir.isÉg hef velt því svolítið fyrir mér uppá síðkastið hvaða net-fréttamiðil fólk sé aðallega að nota hérna á Íslandi. Ég sjálfur hef hingað til langmest notað mbl.is og talið þá síðu vera eiginlega ‘mömmu’ íslenskra net-fréttamiðla. Það var svo núna þegar ég byrjaði í stjórnmálafræði í skólanum að ég fór að spá meira í þessu og þá sérstaklega hverjir það séu sem eiga þessa fréttamiðla og hvort þeir með einhverjum hætti stjórni því hvað sé birt og hvað ekki. Strax var byrjað að tala um Moggann sem ‘blátt’ blað og að ‘bláa höndin’ ráði þar ríkjum. Ég hafði í sjálfu sér aldrei spáð í því hvort menn gerðu þetta, keyptu sér fjölmiðil með það að markmiði að hafa áhrif á fréttaflutninginn með beinum eða óbeinum hætti. Ástæðan fyrir því að ég valdi mbl.is fram yfir visir.is var sú að ég tengdi síðarnefndu síðuna alltaf við DV, sem er eitt mesta ruslblað sem ég hef augum litið, en það er víst liðin tíð og nú er þetta netmiðill Stöðvar 2 sem er í eigu 365 með meiru.

Það er auðvitað grafalvarlegt mál ef eigendur fjölmiðla ætla sér að hafa áhrif á eða jafnvel banna fréttaflutning af ákveðnum ‘viðkvæmum’ málefnum. Ég ákvað því að bera þessa tvo stærstu net-fréttamiðla íslands saman á einn einfaldan hátt. Nú er Mogginn sagður fréttamiðill sjálfstæðismanna svo ég prófaði að skoða fréttaflutning síðanna tveggja af aðalmálinu í pólitíkinni þessa dagana sem snertir Sjálfstæðisflokkinn vissulega. Við skulum hafa það á hreinu að ég er óflokksbundinn og þetta gerði ég einungis fyrir forvitnissakir. Ég skoðaði fréttaflutning beggja fréttavefja um Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og hans ævintýri í borgarstjórn Reykjavíkur frá því að upp komst um REI-málið.

Til þess að gera langa sögu stutta komst ég að því að mbl.is fer mun vægar í allar ásakanir og reynir frekar að koma fréttum að sem vekja samúð með Vilhjálmi. Vísir.is er hins vegar mun meira ásakandi í sínum fréttum og þar er eins og meira sé um æsifréttamennsku. Til dæmis er ein mest lesna fréttin á vísi.is núna fréttin um að Jóhanna Vilhjálmsdóttir (dóttir Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar) sé hætt í Kastljósinu og voru Vísis menn greinilega að reyna að tengja brotthvarf hennar þaðan við það að hart hefur verið hamrað á Vilhjálmi Þ. í Kastljósinu undanfarið. Enn fremur komst ég að því þegar ég fór að skoða síðurnar betur að á forsíðu mbl.is er auglýsing frá Sjálfstæðisflokknum, en þar eru þeir að auglýsa einhvern stjórnmálaskóla (sem ég vissi nú ekki að væri til, ætli það sé kennt manni að setja X við D þar? :).

Ég er þó næstum viss um að hægt sé að finna eitthvað sem Vísir.is ákveður að ‘tala minna um’ en er svo háværara á mbl.is, þar sem eigendur Vísis.is er 365 fjölmiðlar, sem er svo að stærstum hluta til í eigu Baugs Group. Baugsfeðgar og Davíð Oddsson hafa sjaldan verið taldir góðir vinir og spurning hvort þessir aðilar beiti völdum sínum til að hafa áhrif á fréttaflutning ‘sinna fjölmiðla’ (ef Sjálfstæðisflokkurinn er við stjórnvölinn í Mogganum eins og menn segja).

Þá er það líka stóra spurningin, er það rétt að hluthafar beiti þrýstingi og ‘ritskoði’ þannig hvað sé birt á fjölmiðli í þeirra eigu? Ég hugsa að flestir með eitthvað á milli eyrnanna svari þessari spurningu neitandi, en er þetta ekki samt að gerast? Fjölmiðlar leika stórt hlutverk í okkar daglega lífi og eiga að mér finnst að vera algjörlega óháðir í öllum fréttaflutningi. Ég er ekki að segja að fjölmiðlar á Íslandi séu það ekki, en ég mun hins vegar héðan í frá leggja leið mína lengra en einungis á mbl.is þegar ég skoða fréttir á netinu.

Svona til að fylgja þessari færslu eftir ákvað ég að setja upp litla könnun og sjá hvaða fréttasíður fólk er mest að nota, og þá er ég að tala um íslenskar fréttasíður. Endilega takið þátt í þessari könnun til að svala forvitni minni…

Lifið heil.