létt áfengi í verslanir?

Var rétt í þessu að lesa frásögn manns hér í bæ, þar sem hann lýsir því að hann hafi orðið vitni af því að unglingur í Grunnskólanum hér í Eyjum hafi verið að drekka áfengi fyrir utan húsið hans klukkan 9 um morguninn á skólatíma. Strákurinn var að gúffa í sig hálfum líter af bjór eldsnemma um morgun og það á skólatíma. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að orða mín viðbrögð við þessu, ég er eiginlega bara orðlaus. Þetta eru að sjálfsögðu skelfilegar fréttir og ættu vonandi að vekja viðbrögð foreldra og kennara hér í bæ. Maður vissi svo sem að það eru alltaf einhverjir krakkar sem byrja að fikta við áfengi í efstu bekkjum grunnskóla, en að um sé að ræða neyslu áfengis í byrjun dags, á skólatíma hlýtur að gefa til kynna að ekki sé allt með felldu heima hjá viðkomandi. Ég hef í það minnsta ekki heyrt um svona lagað áður.

En þetta var nú samt ekki ástæða þess að ég gaf mér tíma til að henda inn nokkrum línum. Í þessari frétt (sem er reyndar blogg frá Þorkeli Sigurjónssyni) talar hann um eigin reynslu af áfengi þegar hann var á grunnskólaaldri, og að sú reynsla hafi verið kveikjan að yfir 40 ára baráttu hans við Bakkus. Ég þekki ekki hans sögu, en samgleðst honum að hafa náð að vinna úr sínum vandamálum að sjálfsögðu. Ég er bara ekki sammála honum þegar hann segir að með “meiru og betra aðgengi” að bjór og léttvíni, (þar sem hann er að tala um frumvarp sem var lagt fyrir á Alþingi og felur í sér að bjór og létt áfengi verði selt í verslunum) sé verið að stuðla að aukinni unglingadrykkju – eða bara aukinni drykkju yfir höfuð.

Ég tel rót áfengisvandans liggja dýpra en í hversu auðvelt (eða ekki) það sé að útvega sér áfengi. Það vita það allir að unglingur sem langar í áfengi, reddar sér áfengi á einn eða annan hátt. Ég held ég geti nú alveg fullyrt það að unglingadrykkja hér á Íslandi er ekkert minni en í nágrannalöndum okkar, þar sem áfengi er selt í verslunum. Þvert á móti hafa Íslendingar orð á sér sem djammkóngar og eru til dæmis auglýstar ferðir hingað til lands þar sem tekið er fram að djammið í Reykjavík sé engu líkt þar sem djammað er fram á morgun og jafnvel lengur, og held ég það séu orð með réttu. Ástandið í miðbæ Reykjavíkur hefur örugglega aldrei verið skuggalegra, fréttir af líkamsárásum, stungum og þess háttar hafa aldrei verið fleiri en nú.

Ég myndi halda að aðstæður heima hjá þessum unga manni, sem Þorkell sá sötra á bjór fyrir utan heima hjá sér klukkan 9 um morgun á skóladegi, sé ástæða þess að hann snýr sér að áfenginu til að “deyfa” tilveruna. Það hvort ákveðið verði að selja áfengi í verslunum eða ekki mun örugglega ekki hafa nein áhrif á það hvort hann eigi eftir að gera þetta aftur eða ekki. Þetta er einstakt dæmi, ég hef allavega aldrei heyrt um svona lagað áður og maður skyldi ætla að ekki sé allt í lagi heima fyrir hjá viðkomandi. Er þá ekki réttara að eiga við þann vanda áður en farið er í að “fyrirbyggja” annan hugsanlegan vanda?

Maður spyr sig…