landsliðið og sýslumaðurinn…

Maður getur víst ekki annað en látið undan þegar Ólöf Ragnarsdóttir biður um blogg frá manni. Heimakletturinn!Vá hvað ég hlýt að vera ómissandi partur í lífi hennar 😀 En ég ætla að sjálfsögðu að eyða nokkrum línum hér í að hrauna yfir okkur blessaða landslið í fótbolta. Ég get bara ekki með nokkru móti skilið hvað í !”#$#”/& er í gangi þar á bæ!?! Við ‘vinnum’ Spánverja 1 – 1 hérna á heimavelli (vinnum að sjálfsögðu miðað við höfðatölu) og vinnum svo Norður-Íra 2 – 1 einnig á heimavelli. Eftir þessi snilldar úrslit þýtur liðið upp um heil 37 sæti á FIFA listanum, úr 117 í 80.

Það þarf svo ekki að spurja með framhaldið, tap 2 – 4 fyrir Lettum á heimavelli og skíta svo upp á herðablöð í Lichtenstein 3 – 0. Hvað er málið!?! Af hverju getur þetta lið ekki haldið haus eftir ein eða tvenn góð úrslit? Ég verð að viðurkenna að allavega í leiknum við Lettana (horfði ekki á leikinn á móti Lichtenstein) vantaði klettinn í vörnina, Hermann nokkurn Hreiðarsson. Þeir voru gjörsamlega úti að aka og allir menn Letta fríir í hornspyrnum og aukaspyrnum (já, ég er Vestmannaeyingur 😉

Nú er bara einn leikur eftir í riðlinum og er það leikur gegn Dönum á útivelli… ég vona bara að við töpum ekki meira en 14 – 2.

En að öðru, sá í Fréttum í síðustu viku svar sýslumannsins í Eyjum við viðtali sem tekið var við Andra, sem lenti í mótorhjólaslysi hérna í Eyjum í sumar. Þar fer Karl Gauti hamförum um að hann líði það ekki að logið sé upp á lögregluna í Vestmannaeyjum og talar nánast eins og Andri sé að kenna löggunni um það hvernig fór fyrir honum. Bíddu, má allt í einu ekki gagnrýna störf lögreglunnar? Má ekki sá sem hefur lent í slysi eða átt önnur samskipti við lögregluna tala um sína reynslu sama hvort hún sé góð eða slæm? Það sem hann hefur í höndunum eru vinnuskýrslur frá þeim sem þarna voru á staðnum, ég ætla að leyfa mér að efa að hann hafi verið á staðnum sjálfur. Ég vil benda á að ég er alls ekki að taka afstöðu í þessu máli, heldur að benda á það að gagnrýni Andra á störf lögreglu og lækna á slysstað er ekkert alvarlegri en ásökun sýslumanns um að Andri sé að ljúga.

Það hefur mikið verið rætt í blöðunum að það vanti menn í lögregluna hér í Vestmannaeyjum og ég gat ekki betur séð í sumar að flestir voru þetta afleysingamenn sem hér voru, einhverjir héðan úr Eyjum en einnig einhverjir ofan af landi. Mér finnst ekki skrýtið að Andri setji spurningamerki við störf á slysstað ef læknar í Reykjavík hafi sagt að þeir hafi ekki búist við honum svona ‘illa förnum’, sama hvort þar var um að kenna störfum læknis eða sjúkraflutningamanna (lögreglu). Af hverju ekki að taka gagnrýninni og ýja því frekar að, að það vanti mannskap í þessi störf svo að það komi nú líka fram. Þess í stað kemur höstug grein frá Sýslumanni þar sem hann fullyrðir að ekkert hafi verið gert vitlaust, Andri sé fúll út í afleyðingar slyssins en geti bara sjálfum sér um kennt. Svo kemur í lokin ‘dulin’ batakveðja til Andra.

Það er auðvelt að vera stórt nafn í litlu bæjarfélagi og kaffæra gagnrýnisraddir í bæjarblöðunum, en hvernig væri nú að horfast í augu við raunveruleikann og viðurkenna að hingað vantar lærða lögreglumenn/sjúkraflutningamenn, og þá sérstaklega yfir sumartímann.

3 comments

  1. Það er gott að heyra Ólöf mín… ég verð að fara að koma oftar með færslur svo þú leggist nú ekki í þunglyndi í skammdeginu…

    Annars verð ég nú að benda á grein sem sýnir svart á hvítu hversu hræðilegur þessi ósigur íslenska landsliðsins gegn Lichtenstein í raun og veru er:
    http://www.panama.is/index.php?action=folkid&id=10640

Comments are closed.