gamalt og gott…

Það hefur verið mjög sérstakt andrúmsloft á Brimhólabraut 1 þessa dagana, þar sem mamma er búin að vera á fullu í að sortera gamlar myndir sem hún var búin að ‘týna’ og koma þeim í albúm. Ég hef gefið mér smá tíma til að skoða eitthvað af þessu ógrynni sem hún móðir mín hefur tekið af myndum í gegnum tíðina, og þá aðallega frá því þegar við bjuggum á Búhamrinum góða. Ég verð nú bara að segja það að ef ríkidæmi væri metið í minningum á borð við ljósmyndir og alls kyns dót og drasl sem við krakkarnir höfum komið með heim úr skólanum og gefið okkar ástkæru foreldrum, þá bara Björgólfur hvað – Sigga Þórhalls væri nafnið sem væri á allra vörum í dag. Ég er ekkert viss um að Britney Spears sé mest ljósmyndaðasta manneskjan í heiminum… Þegar myndavélin var/er komin á loft hjá mömmu þá er ekki aftur snúið, það er enginn óhultur. Ég er alls ekki að segja að þetta sé slæmt, þvert á móti þegar maður gefur sér tíma til að setjast niður og skoða þetta allt saman. Ég man að ég var ekkert allt of spenntur fyrir myndatökurnar hjá mömmu, enda sést það mætavel á svona 2/3 af myndunum.

Það er einmitt á svona tímum sem maður sér hvað það er mikilvægt að eiga myndirnar sínar í albúmi, ekki bara á stafrænu formi í tölvunni. Ég veit ekki hvað ég á mikið af myndum í tölvunni sem ég bara hef ekki hugmynd um, þar sem ég nenni voðalega lítið að skoða allar þessar myndir á tölvuskjánum. Það er miklu meiri fílingur að fletta í gegnum albúmin.

Albúmin sem ég hef verið að skoða eru mestmegnis úr afmælum okkar bræðranna (míns, Sigga og Ingólfs) nú eða bara þegar mömmu hefur fundist ástæða til að smella af nokkrum myndum heima fyrir. Ég ákvað nú bara svona til að leyfa ykkur fá smjörþefinn af þessari skemmtun minni að skanna inn eins og 2 – 3 myndir, eina úr afmæli, eina úr tindátaleik úti í garði og svo eina sem ég sá á fermingarskeyti hjá Elenu systur, en það er greinilega mjög gömul mynd af Landakirkju með rautt þak, menntavegurinn góði áður en hann varð bara fyrir gangandi vegfarendur (hmmmm) og svo verið að byggja við Barnaskólann. Helvíti skemmtilegar myndir allt saman.

Þekkir fólk krakkana á þessum myndum? 😀

Landakirkja  Tindátaleikur  Afmæli á Búhamri 12