vangaveltur um reykingabann…

Nú tók í gildi í sumar, nánar tiltekið 1. júní, reykingabann hér á landi sem kveður á um að reykingar séu með öllu óheimilar á veitingahúsum og skemmtistöðum. Til að hafa þetta svolítið háfleygt og flott ætla ég að vitna í fyrstu málsgrein “reykingalaganna” svokölluðu

Tóbaksreykingar eru óheimilar í þjónusturými stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, svo sem á veitinga- og skemmtistöðum og þar sem menningar- og félagsstarfsemi fer fram, þ.m.t. íþrótta- og tómstundastarf. Sama er um þjónustusvæði utan húss séu þau undir föstu eða færanlegu þaki og meira en að hálfu leyti umlukin veggjum eða sambærilegum mannvirkjum.

Nú hefur maður kíkt einu sinni og kannski tvisvar á pöbbann hérna í Eyjum og ekki get ég sagt að þessu reykingabanni sé mikið fylgt eftir þar á bæ (að undanskildum Drífanda). Þá vaknar sú spurning í valdi hvers það er að framfylgja þessum lögum. Ég hefði haldið að það væri lögreglan, en lenti svo á spjalli við einstakling sem vinnur á skemmtistað og sagði hann að það væri ekki lögreglunnar að framfylgja þessum lögum, heldur væri það í höndum heilbrigðisyfirvalda.

Ég hélt einmitt að allt sem væri sett í lög á Alþingi væri lögreglunnar að framfylgja. Ég hef ekki mikið séð starfsmann frá heilbrigðisyfirvöldum taka pöbbaröltið hér í Eyjum til að skoða ástandið. Það er tvennt ólíkt að labba inn á stað þar sem reykingabannið er virt en stað sem það er ekki virt. Mér persónulega finnst að það eigi að vera í höndum lögreglu að gera eitthvað í þessu því annars mun þetta detta upp fyrir sig og reykingar leyfðar á öllum þessum stöðum, því auðvitað tapar þessi eini staður sem er virkilega að framfylgja reykingabanninu á því að hinir staðirnir skuli leyfa reykingar.

En í framhaldi af þessu langar mig til að spyrja hvort einhver viti hvort það sé lögreglunnar að framfylgja þessu eða ekki? Ég hélt það væru einhverjar himinháar sektir ef einhver yrði gripinn við reykingar inná staðnum… varla fer heilbrigðiseftirlitið að sekta? Og kannski eitt enn, hvað finnst fólki um þetta reykingabann?