rólegheit og leti…

Þessi helgi fer nú á spjöld sögunnar í mínum bókum, þar sem ég er örugglega að setja persónulegt met í fáum bjórum innbyrgt yfir heila helgi. Það hafa svo mikið sem 2 bjórar runnið ljúflega niður þessa helgi og býst ég fastlega við að þeir verði ekki fleiri… 😛
Mamma og pabbi eru búin að vera í bænum núna frá því á fimmtudaginn og eru eitthvað að stússast í eldhúsinnréttingum og tækjum, þar sem þau eru nú að byrja á að gera upp eldhúsið á Brimhólabraut 1. Ég og Bergdís erum búin að fara tvisvar út að borða með þeim, ásamt Elenu og Þóri, og svo tvisvar í bíó með þeim á myndirnar Cinderella Man & Flightplan. Cinderella Man kom mér virkilega á óvart þar sem ég var búinn að heyra sama og ekkert um þessa mynd. Russel Crowe er rosalegur í þessari mynd og eins pirrandi leikkona og mér finnst René Zellweger vera stóð hún sig bara vel í þessari ræmu. Aftur á móti var það Flightplan sem stóðst ekki alveg mínar væntingar. Maður hafði séð hana auglýsta hvað eftir annað bæði í bíóum og í sjónvarpinu og trailerinn var bara nokkuð ‘catchy’ – ég var staðráðinn í að fara á þessa mynd í bíó. Svo einhvernveginn fannst mér, án þess að ætla að skemma þessa mynd fyrir neinum, að hún skilaði sér ekki nógu vel. Er ekki að segja að hún sé léleg, bara hefði getað verið gerð betur. Mitt álit 😉

Svo styttist óðum í Eyjaferðina ógurlegu: Operation Hlynsatjútt er bara handan hornsins, en eins og allir með greindarvísitölu yfir frostmarki vita varð lítill akureyskur háskóla-Hlynur 22 ára þann 3. október síðastliðinn og mun fagna þeim merka áfanga næstu helgi í Eyjum. Ég býst við alveg rosalegri helgi og ætla ég mér að reyna að ná fyrri ferð á föstudeginum, s.s. kyssa nokkra rassa í vinnunni

Ég hef ákveðið að kaupa mér ferðatölvu í London! Þessar blessuðu ferðavélar eru orðnar svo helvíti öflugar. Maður getur spilað alla leiki í þeim og skjáirnir orðnir rosalegir, svo ekki sé nú minnst á hvað þetta er MIKLU fyrirferðaminna en PC tölva. Er búinn að vera að skoða svolítið af tölvum og er ekki alveg búinn að ákveða hvernig vél ég kaupi og mun örugglega bara ákveða það með Þórhalli í London… ég get ekki beðið! 😀

En jæja, ætla að kalla þetta gott og horfa aðeins á telly’ið, fara kannski að sofa fyrr en vanalega á laugardegi og taka eins og einn sunnudag á ævinni snemma

P.S Ég vil óska Óla og Sunnu innilega til hamingju með frumburðinn, yndislega fallega stúlku sem kom í heiminn fimmtudaginn síðastliðinn. Allar mínar hamingjuóskir fá þessir nýkrýndu foreldrar sem ég veit að er hamingjusamast fólk í heimi þessa dagana